Furðufrétt um tjón og ábyrgð

Í Morgunblaðinu 1. maí 2014 er skrítin frétt um framkvæmdir á Lýsisreit við Grandaveg í Reykjavík. Í fréttinni má glögglega lesa um hvert regluverk hins opinbera er að leiða samfélagið. Í sem stystu máli virðist sem eigendur fasteigna í grennd við Lýsisreitinn telji hús sín hafa orðið fyrir tjóni vegna sprengingar á mikilli löpp á Lýsisreitnum.

Sprengiverktaki

Ekkert fer fyrir því í fréttinni í hverju tjón þetta er fólgið, en hins vegar ítrekað vitnað í forstjóra verktakafyrirtækisins sem vinnur við að sprengja klöppina. Hann segir m.a.: „Okkur finnst það hálf hjákátlegt að ætlast sé til þess að við borgum fyrir tjón sem verður þegar við erum að vinna innan ramma reglugerða.”, og einnig „Við erum að vinna eftir reglum sem yfirvöld setja og þetta er eins og með umferðarlögin. Þú  getur ekki verið skaðabótaskyldur vegna óljóss tjóns sem verður annars staðar þegar þú ferð eftir reglunum.” í frétt af sama máli á mbl.is eru efnistök hins vegar nokkuð önnur.

En samkvæmt orðum verktakans er málið þá þannig að ef regluverk hins opinbera tekur til einhverrar starfsemi, hverju tagi sem nefnist, og unnið er innan þess, bera framkvæmda- eða framleiðsluaðili enga ábyrgð á afleiddu tjóni er kann að hljótast af viðkomandi starfsemi. Væntanlega er ábyrgðin þá orðin hins opinbera, eða hvað?

Erum við þá ekki betur komin án regluverksins ? Duga okkur ekki einfaldlega almenn lög um skaðabótaábyrgð?

Undirverktakanum á Lýsisreitnum rataðist þó loks rétt orð á munn þegar hann sagði:  „…það ætti að vera eðlilegra að byggingaraðilinn, eða sá sem hagnast á framkvæmdunum, beri tjón,…”

Er það ekki hin einfalda niðurstaða sem enga nefnd hjá borginni þarf til að fjalla um. Þétting byggðar er vafalítið jákvætt markmið í mörgum hverfum borgarinnar. En kostnaðurinn við framkvæmdina á að falla á framkvæmdaaðilann, hvorki nágranna né skattgreiðendur. Það þarf enga nefnd til að komast að þeirri einföldu niðurstöðu.

Getur regluverk hins opinbera aflétt ábyrgð okkar á eigin gerðum? Er það framtíðardraumur reglugerðarsamfélagsins - að enginn beri ábyrgð á gerðum sínum og öllu megi vísa til hins opinbera?

Verst að einn hópur hefur aldrei, og mun aldrei, bera ábyrgð á gerðum sínum; reglusmiðirnir. Kannski væri eðlilegast að kalla þá til ábyrgðar. Þá myndi regluverkið fljótt minnka.

 


mbl.is Íbúar í mál vegna sprengitjóns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband