Starfa englar hjá hinu opinbera?

Lögreglan hlerar og tekur upp samtal lögmanns og skjólstæðings hans. Héraðsdómari hlustar á herlegheitin og gerir engar athugasemdir. Það er ekki fyrr en í Hæstarétt er komið er gerð athugasemd við þetta alvarlega brot á réttindum sakborningsins. Hafa viðkomandi opinberir starfsmenn verið áminntir eða sætt ábyrgð með öðrum hætti?

Fyrrum forstjóri Fjármálaeftirlitsins er sakaður um að hafa sótt trúnaðarupplýsingar um Alþingismann til að koma höggi á hann. Það mál er nú fyrir dómstólum.

Seðlabanki Íslands ræðst inn í húsakynni Samherja á grundvelli upplýsinga sem Kastljósi hafa borist. Þær upplýsingar eru m.a. byggðar á trúnaðargögnum hins opinbera s.s. tollskýrslum, að því er virðist. Í ljós kemur reyndar einnig að forsendur Seðlabankans fyrir rannsókn á Samherja reynist röng. Seðlabankinn kunni ekki að reikna. En dómstólar segja það engu skipta.

Heimildum til símhlerana virðast lítil takmörk sett og eftirlit með framkvæmd nánast ekkert. Fjárskorti er kennt um.

Hundruðir manna hafa stöðu grunaðra hjá Sérstökum saksóknara, og virðist á þeim bæ lítið liggja á að létta þeirri áþján af þeim stóra hópi sem aldrei verður til saka sóttur.

Samkeppniseftirlitið dregur mál von úr viti til að komast hjá því að viðurkenna að rannsóknir þess hafa engan árangur borið. Og þar með að stórfelldur kostnaður þess og fyrirtækja sem til rannsóknar voru var fullkomin peningasóun.

Og við eigum svo að trúa því að forvirkar rannsóknarheimildir verði ekki misnotaðar af starfsmönnum hins opinbera ?

Hvaðan kemur sú hugmynd að opinberir embættismenn séu eitthvað öðruvísi að gerð en annað fólk? Að þeir séu ekki breiskir? Að þeir geri reglulega mistök og eigi erfitt með að viðurkenna þau? Að einhverjir þeirra misnoti ekki aðstöðu sína í eigin þágu eða annarra? Rétt eins og gerist annars staðar í samfélaginu.

Forvirkar rannsóknarheimildir eiga lítinn rétt á sér. Eða sívirkt eftirlit með nýjum miðlum eins og internetinu, tölvupósti o.s.frv. Ef einstaklingar liggja undir grun um ólögmætt athæfi eru heimildir fyrir hendi til að rannsaka slík mál. Stjórnmála - og embættismenn seilast sífellt lengra í ásókn sinni í eftirlitsheimildum með samborgurum sínum. Við skulum ekki halda að auknum völdum fylgi ekki aukin spilling. Englar starfa ekki meðal vor - ekki einu sinni hjá hinu opinbera.

Frekari aðskilnaður rannsóknaraðila og ákæruvalds er frekar þörf, og meira eftirlit með því að í hvívetna sé gætt réttinda sakborninga eða þess fólks sem fylgst er með.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðsherra, er í flestum málum talsmaður skelfilegrar forsjárhyggju. En þegar kemur að forvirkum rannsóknarheimildum er ástæða til að styðja hann í því að stigið skuli varlega til jarðar þegar breiskum mönnum eru veittar heimildir til eftirlits með samborgurum sínum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Geir Ágústsson

Nú veit ég ekki hvað tók marga áratugi eða árhundruð fyrir haug af spekingum að færa góð rök fyrir því að dómskerfi eigi að byggjast á þeirri forsendu að menn séu saklausir uns sekt sé sönnuð. En núna á að sópa þessu undir teppið.

Geir Ágústsson, 8.12.2012 kl. 21:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband