Skattgreiðendur fjármagna síbrotamann
18.11.2012 | 13:04
Í annað sinn á innan við ári hefur Hæstiréttur dæmt réttamann Ríkisútvarpsins, Svavar Halldórsson, til greiðslu bóta fyrir meiðyrði. Og í annað sinn hafa yfirmenn hans á Ríkisútvarpinu, Páll Magnússon og Óðinn Jónsson, ákveðið að skattgreiðendur fjármagni afleiðingarnar af óásættanlegum vinnubrögðum starfsmannsins.
Þessi ráðstöfun almannafjár er fullkomið virðingarleysi fyrir þeim sem þvingaðir eru til greiðslu á rekstri Ríkisútvarpsins. Það var ekki afsakanlegt hið fyrra sinnið og enn síður hið síðara.
Ólíkt breska ríkisútvarpinu BBC hvers yfirmenn hafa axlað ábyrgð af nýlegum mistökum starfsmanna sinna þá hreyfa yfirmenn Ríkisútvarpsins sig hvergi. Þeir láta ekki svo lítið að veita fréttamanninum áminningu fyrir slæleg vinnubrögð. Sjálfur heitir hann því að hvika hvergi og halda áfram á sömu braut og sýnir enga iðrun eða vilja til að leiðrétta mál sitt.
Allir þrír skáka þeir í því skjólinu að fórnarlömb fúsksins hjá Svavari eiga ekki upp á pallborðið hjá almenningi.
En fúsk er fúsk, óháð því hver fyrir því verður. Vinnubrögð Svavars má ekki dæma út frá fórnarlömbunum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.