Ég er þakklátur þeim

Nú er að ganga í garð val frambjóðenda flokkanna fyrir næstu þingkosningar. Þeir flokkar á vinstri vængnum sem mest kenna sig við frelsi og lýðræði velja oftar en ekki fulltrúa sína með sem minnstri aðkomu stuðningsmanna sinna, en stærri flokkarnir viðhafa í flestum tilvikum einhvers konar prófkjör. Prófkjör skilar okkur ekki endilega þeim þingmönnum sem við, mörg hver, helst vildum, en önnur betri aðferð hefur ekki verið fundin sem skilar jafn lýðræðislegri niðurstöðu.

Prófkjörin gefa sitjandi þingmönnum og aðilum sem þekktir eru úr þjóðlífinu töluvert forskot. Aðrir eiga á brattann að sækja og verða að eyða miklum tíma, fyrirhöfn og fjármunum til að ná athygli kjósenda. Skiptir þá litlu þó þeir aðilar kunni að hafa mun meira fram að færa en þekktu andlitin.

Og fyrir marga frambjóðendur er allt þetta starf til þess eins að sækja um starf sem gefur lítið í aðra hönd með löngum vinnutíma, takmörkuðu orlofi og oft litlu þakklæti. Eða eins og mér var bent á; eyða þarf 2 - 3 milljónum til að sækja um lakari laun með auknum vinnutíma. Starf sem ekki er fjölskylduvænt og býður ekki upp á sérstaklega aðalaðandi vinnuaðstöðu og fjöldan allan af óskemmtilegum vinnufélagum.

Þórður Snær Júlíusson vekur athygli á þessu í leiðara Fréttablaðsins 20. júní sl.:

„Íslensk samfélagsgerð er blanda af markaðshyggju og sósíalískri velferð. Í slíku samfélagi kostar peninga að fá gott fólk til starfa. Ef við viljum ekki eyða peningum í lýðræðið og vönduð vinnubrögð þá fáum við þá afskræmingu stjórnmálanna sem oft blasir við okkur á þjóðþingi okkar. Verði það ekki gert mun Alþingi áfram fyllast á fjögurra ára fresti af fólki sem ekki er eftirspurn eftir annars staðar í samfélaginu.”

Orð að sönnu.

Það er því ánægjulegt að sjá að á þessu eru til undantekningar. Fólk sem hugsjónanna vegna er tilbúið til að fórna, eða fresta, eigin tekjumöguleikum, til að sinna þessu starfi. Fólk sem fjárhagslega gæti haft það mun betra utan þings en innan. Og það á ekki við margan vinstri manninn. En nú er gott val borgaralega sinnað fólks sem þetta á við um og tekur þátt í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í Kraganum og Reykjavík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband