Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Starfa englar hjá hinu opinbera?
8.12.2012 | 10:56
Lögreglan hlerar og tekur upp samtal lögmanns og skjólstæðings hans. Héraðsdómari hlustar á herlegheitin og gerir engar athugasemdir. Það er ekki fyrr en í Hæstarétt er komið er gerð athugasemd við þetta alvarlega brot á réttindum sakborningsins. Hafa viðkomandi opinberir starfsmenn verið áminntir eða sætt ábyrgð með öðrum hætti?
Fyrrum forstjóri Fjármálaeftirlitsins er sakaður um að hafa sótt trúnaðarupplýsingar um Alþingismann til að koma höggi á hann. Það mál er nú fyrir dómstólum.
Seðlabanki Íslands ræðst inn í húsakynni Samherja á grundvelli upplýsinga sem Kastljósi hafa borist. Þær upplýsingar eru m.a. byggðar á trúnaðargögnum hins opinbera s.s. tollskýrslum, að því er virðist. Í ljós kemur reyndar einnig að forsendur Seðlabankans fyrir rannsókn á Samherja reynist röng. Seðlabankinn kunni ekki að reikna. En dómstólar segja það engu skipta.
Heimildum til símhlerana virðast lítil takmörk sett og eftirlit með framkvæmd nánast ekkert. Fjárskorti er kennt um.
Hundruðir manna hafa stöðu grunaðra hjá Sérstökum saksóknara, og virðist á þeim bæ lítið liggja á að létta þeirri áþján af þeim stóra hópi sem aldrei verður til saka sóttur.
Samkeppniseftirlitið dregur mál von úr viti til að komast hjá því að viðurkenna að rannsóknir þess hafa engan árangur borið. Og þar með að stórfelldur kostnaður þess og fyrirtækja sem til rannsóknar voru var fullkomin peningasóun.
Og við eigum svo að trúa því að forvirkar rannsóknarheimildir verði ekki misnotaðar af starfsmönnum hins opinbera ?
Hvaðan kemur sú hugmynd að opinberir embættismenn séu eitthvað öðruvísi að gerð en annað fólk? Að þeir séu ekki breiskir? Að þeir geri reglulega mistök og eigi erfitt með að viðurkenna þau? Að einhverjir þeirra misnoti ekki aðstöðu sína í eigin þágu eða annarra? Rétt eins og gerist annars staðar í samfélaginu.
Forvirkar rannsóknarheimildir eiga lítinn rétt á sér. Eða sívirkt eftirlit með nýjum miðlum eins og internetinu, tölvupósti o.s.frv. Ef einstaklingar liggja undir grun um ólögmætt athæfi eru heimildir fyrir hendi til að rannsaka slík mál. Stjórnmála - og embættismenn seilast sífellt lengra í ásókn sinni í eftirlitsheimildum með samborgurum sínum. Við skulum ekki halda að auknum völdum fylgi ekki aukin spilling. Englar starfa ekki meðal vor - ekki einu sinni hjá hinu opinbera.
Frekari aðskilnaður rannsóknaraðila og ákæruvalds er frekar þörf, og meira eftirlit með því að í hvívetna sé gætt réttinda sakborninga eða þess fólks sem fylgst er með.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðsherra, er í flestum málum talsmaður skelfilegrar forsjárhyggju. En þegar kemur að forvirkum rannsóknarheimildum er ástæða til að styðja hann í því að stigið skuli varlega til jarðar þegar breiskum mönnum eru veittar heimildir til eftirlits með samborgurum sínum.
Skattgreiðendur fjármagna síbrotamann
18.11.2012 | 13:04
Í annað sinn á innan við ári hefur Hæstiréttur dæmt réttamann Ríkisútvarpsins, Svavar Halldórsson, til greiðslu bóta fyrir meiðyrði. Og í annað sinn hafa yfirmenn hans á Ríkisútvarpinu, Páll Magnússon og Óðinn Jónsson, ákveðið að skattgreiðendur fjármagni afleiðingarnar af óásættanlegum vinnubrögðum starfsmannsins.
Þessi ráðstöfun almannafjár er fullkomið virðingarleysi fyrir þeim sem þvingaðir eru til greiðslu á rekstri Ríkisútvarpsins. Það var ekki afsakanlegt hið fyrra sinnið og enn síður hið síðara.
Ólíkt breska ríkisútvarpinu BBC hvers yfirmenn hafa axlað ábyrgð af nýlegum mistökum starfsmanna sinna þá hreyfa yfirmenn Ríkisútvarpsins sig hvergi. Þeir láta ekki svo lítið að veita fréttamanninum áminningu fyrir slæleg vinnubrögð. Sjálfur heitir hann því að hvika hvergi og halda áfram á sömu braut og sýnir enga iðrun eða vilja til að leiðrétta mál sitt.
Allir þrír skáka þeir í því skjólinu að fórnarlömb fúsksins hjá Svavari eiga ekki upp á pallborðið hjá almenningi.
En fúsk er fúsk, óháð því hver fyrir því verður. Vinnubrögð Svavars má ekki dæma út frá fórnarlömbunum.
Ég er þakklátur þeim
4.11.2012 | 14:54
Nú er að ganga í garð val frambjóðenda flokkanna fyrir næstu þingkosningar. Þeir flokkar á vinstri vængnum sem mest kenna sig við frelsi og lýðræði velja oftar en ekki fulltrúa sína með sem minnstri aðkomu stuðningsmanna sinna, en stærri flokkarnir viðhafa í flestum tilvikum einhvers konar prófkjör. Prófkjör skilar okkur ekki endilega þeim þingmönnum sem við, mörg hver, helst vildum, en önnur betri aðferð hefur ekki verið fundin sem skilar jafn lýðræðislegri niðurstöðu.
Prófkjörin gefa sitjandi þingmönnum og aðilum sem þekktir eru úr þjóðlífinu töluvert forskot. Aðrir eiga á brattann að sækja og verða að eyða miklum tíma, fyrirhöfn og fjármunum til að ná athygli kjósenda. Skiptir þá litlu þó þeir aðilar kunni að hafa mun meira fram að færa en þekktu andlitin.
Og fyrir marga frambjóðendur er allt þetta starf til þess eins að sækja um starf sem gefur lítið í aðra hönd með löngum vinnutíma, takmörkuðu orlofi og oft litlu þakklæti. Eða eins og mér var bent á; eyða þarf 2 - 3 milljónum til að sækja um lakari laun með auknum vinnutíma. Starf sem ekki er fjölskylduvænt og býður ekki upp á sérstaklega aðalaðandi vinnuaðstöðu og fjöldan allan af óskemmtilegum vinnufélagum.
Þórður Snær Júlíusson vekur athygli á þessu í leiðara Fréttablaðsins 20. júní sl.:
Íslensk samfélagsgerð er blanda af markaðshyggju og sósíalískri velferð. Í slíku samfélagi kostar peninga að fá gott fólk til starfa. Ef við viljum ekki eyða peningum í lýðræðið og vönduð vinnubrögð þá fáum við þá afskræmingu stjórnmálanna sem oft blasir við okkur á þjóðþingi okkar. Verði það ekki gert mun Alþingi áfram fyllast á fjögurra ára fresti af fólki sem ekki er eftirspurn eftir annars staðar í samfélaginu.
Orð að sönnu.
Það er því ánægjulegt að sjá að á þessu eru til undantekningar. Fólk sem hugsjónanna vegna er tilbúið til að fórna, eða fresta, eigin tekjumöguleikum, til að sinna þessu starfi. Fólk sem fjárhagslega gæti haft það mun betra utan þings en innan. Og það á ekki við margan vinstri manninn. En nú er gott val borgaralega sinnað fólks sem þetta á við um og tekur þátt í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í Kraganum og Reykjavík.